Fótbolti

Herrera rekinn fyrir að kýla blaðamann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Herrera stýrði Mexíkó í síðasta sinn gegn Jamaíku í úrslitaleik Gullbikarsins.
Herrera stýrði Mexíkó í síðasta sinn gegn Jamaíku í úrslitaleik Gullbikarsins. vísir/getty
Miguel Herrera var í dag rekinn úr starfi landsliðsþjálfara Mexíkó en hann á að hafa kýlt blaðamann í gær.

„Eftir að hafa ráðfært mig við kollega mína hjá knattspyrnusambandinu hef ég ákveðið að segja Miguel Herrera upp störfum. Þetta er ekki auðveld ákvörðun en sú rétta,“ sagði Decio de Maria, verðandi forseti mexíkóska knattspyrnusambandsins, í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í dag.

Atvikið sem kostaði Herrera starfið átti sér stað á flugvelli í Philadelphia skömmu eftir að Mexíkó tryggði sér sigur í Gullbikarnum, álfukeppni Norður- og Mið-Ameríku.

Herrera er sagður hafa kýlt Christian Marinoli, sem starfar fyrir TV Azteca, í hnakkann þegar þeir voru komnir í gegnum leitarhliðið.

Herrera, sem er þekktur skaphundur, þvertók fyrir að hafa kýlt Marinoli í samtali við El Universal.

„Ég ýtti honum bara. Við vorum að rífast og ég ýtti honum. Ég er ekki svo heimskur að hafa kýlt hann,“ sagði þjálfarinn sem þarf nú að fara að leita sér að nýju starfi.

Herrera stýrði Mexíkó í alls 36 leikjum á tæpum tveimur árum í starfi landsliðsþjálfara. Nítján þeirra unnust, 10 lyktaði með jafntefli og sjö töpuðust.


Tengdar fréttir

Mexíkó vann Gullbikarinn

Mexíkó vann Gullbikarinn, álfukeppni Norður- og Mið-Ameríku, í nótt eftir öruggan 3-1 sigur á Jamaíku í úrslitaleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×