Kolbeinn Sigþórsson lék síðustu 25 mínúturnar þegar AIK tapaði fyrir Ararat-Armeníu, 2-1, í fyrri leik liðanna í 1. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í dag.
Sænsku meistararnir byrjuðu leikinn skelfilega, lentu undir strax á 3. mínútu og tíu mínútum síðar fékk Robert Lundstrom sitt annað gula spjald og þar með rautt.
Þrátt fyrir að vera manni færri jafnaði AIK á 39. mínútu með marki Chinedus Obasi.
Á lokamínútu fyrri hálfleiks skoraði Petros Avetisyan sitt annað mark og kom armensku meisturunum yfir.
Kolbeinn kom inn á fyrir markaskorarann Obasi á 65. mínútu.
AIK tókst ekki að jafna en útivallarmarkið sem Obasi skoraði gæti reynst liðinu dýrmætt í seinni leiknum sem fer fram í Svíþjóð á miðvikudaginn í næstu viku.
Sigurvegarinn í einvíginu mætir annað hvort Val eða Maribor í næstu umferð.
