Innlent

Hátindur ferilsins

Halldór Ásgrímsson segist nú standa á hátindi ferils síns. "Þetta er mikilvægasta embætti þjóðarinnar, hver sem fer í það starf hlýtur að standa á hátindi ferils síns, sagði Halldór þegar hann tók við lyklavöldum í forsætisráðuneytinu af Davíð Oddssyni. "Þetta er nú enginn nýgræðingur," sagði Davíð Oddsson um arftaka sinn. "Þetta er maður sem hefur verið lengi í stjórnmálum. Þetta starf gengur út á það að sýna festu, aga og sanngirni í hæfilegri blöndu. Mér hefur kannski ekki alltaf tekist það en ég hef haft það að leiðarljósi." Davíð afhenti Halldóri lykla að stjórnarráðshúsinu við Lækjargötu og jafnframt að forsætisráðherrabústaðnum á Þingvöllum að viðstöddum fjölmiðlum síðdegis í gær. Ríkisráð var boðað til fundar á Bessastöðum klukkan eitt í gær og þar lét síðasta ráðuneyti Davíðs Oddssonar formlega af völdum. Forseti Íslands stýrði síðan ríkisráðsfundi ráðuneytis Halldórs Ásgrímssonar, en fyrir utan stólaskipti þeirra Davíðs vék Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra úr stjórninni fyrir Sigríði Önnu Þórðardóttur. Þar með er ríkisstjórnin skipuð fimm framsóknarmönnum í stað sex áður. Sjálfstæðisráðherrunum fjölgar um einn og eru nú sjö og hafa aldrei verið fleiri ráðherrar í ríkisstjórn úr einum og sama flokki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×