Erlent

Stjórnarkreppu í Palestínu lokið

Ahmed Qureia, forsætisráðherra Palestínu, dró afsögn sína til baka í dag. Þar með líkur tveggja vikna stjórnarkreppu í Palestínu.  Qureia sagði af sér í kjölfar þess að Jasser Arafat skipaði frænda sinn sem yfirmann öryggissveita landsins. Arafat neyddist til að draga stöðuveitinguna til baka vegna mikilla mótmæla. Qureia dró síðar afsögn sína til baka tímabundið þegar Arafat neitaði að taka við henni. Síðan þá hefur ríkt hálfgerð stjórnarkreppa í Palestínu eða þangað til Arafat og Qureia funduðu í morgun. Queria sagði þá hafa rætt öll málefnin á opinskáan og yfirgripsmikinn hátt. „Ég vona að þetta sé skref í átt til umbóta og að lögmætisreglan muni gilda í öllu landinu,“ sagði forsætisráðherrann. Arafat sagðist mjög stoltur af fundinum Fréttaskýrendur telja margir að Arafat hafi látið í minni pokann en hann nær þó að halda yfirráðum yfir öryggissveitum landsins. Arafat hefur hins vegar þurft að samþykkja lög sem kveða á um að ríkissaksóknari skuli rannsaka spillta stjórnmálamenn á heimastjórnarsvæðunum. Þetta þykir visst áfall fyrir Arafat.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×