Erlent

Tímamótakosningar í Úkraínu?

Íbúar í Úkraínu ganga að kjörborði í dag til að kjósa sér nýjan forseta. Óttast er að til uppþota geti komið í landinu. Kosið er á milli annars vegar núverandi forsætisráðherra landsins, Viktor Yanukovich, sem nýtur stuðnings fráfarandi forseta, Leonids Kuchma, og stjórnvalda í Rússlandi, og hins vegar leiðtoga stjórnarandstöðunnar, Viktor Yushchenko, sem hefur boðað breytingar í átt að meira frjálslyndi og samstarfi við Vesturlönd. Margir ganga svo langt að segja að valið standi á milli þess hvort Úkraína muni í framtíðinni fylgja Rússum eða Vestur-Evrópu að málum. Afar mjótt er á mununum og óttast er að stjórnvöld grípi til einhvers konar falsana til að tryggja Yanukovich sigurinn. Verði það gert má búast við að stuðningsmenn stjórnarandstæðingsins Yushchenkos rísi upp í mótmælum. Lögregla og her er í viðbragðsstöðu í höfuðborginni Kiev og um fimmhundruð kosningaeftirlitsmenn á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu eru víðs vegar í Úkraínu til að skrá hvernig kosningarnar fara fram. Yushchenko vann fyrri lotu forsetakosninganna með naumindum en munurinn var svo lítill að kjósa þurfti aftur á milli tveggja efstu manna og eftirlitsmenn töldu að úrslitin hefðu verið fölsuð að einhverju leyti, forsætisráðherranum Yanukovich í hag. Kjörstöðum verður lokað í Úkraínu um klukkan sex að íslenskum tíma en búist er við að það taki nokkra daga að telja atkvæðin og fá endanlega niðurstöðu í málið.    



Fleiri fréttir

Sjá meira


×