Erlent

Yushchenko líklega sigurvegari

Útgönguspár í forsetakosningunum í Úkraínu, sem voru birtar rétt í þessu, benda til þess að Viktor Yushchenko beri sigur úr býtum. Yushchenko boðar breytta tíma í Úkraínu og náin tengsl við Vesturlönd. Stuðningsmenn hans eru að safnast saman í miðborg Kíev því þeir óttast að sigurinn verði hafður af þeim með kosningasvindli. Þetta er önnur og síðasta lota forsetakosninganna. Of mjótt var á mununum síðast og því reyndist nauðsynlegt að kjósa á milli efstu manna. Reyndar var talið að úrslitin þá hefðu að einhverju leyti verið fölsuð. Valið stendur á milli tveggja manna. Annars vegar er það núverandi forsætisráðherra landsins, Viktor Yanukovych, sem nýtur stuðnings Rússlandsstjórnar og hefur enda heitið fólki tvöföldum ríkisborgararétti, úkraínskum og rússneskum ,og ætlar að gera rússnesku að öðru opinberu tungumáli landsins. Hann nýtur mikils stuðnings í rússneskumælandi austurhluta Úkraínu. Hins vegar er það hagfræðingurinn Viktor Yushchenko sem nýtur óopinbers stuðnings vestrænna leiðtoga. Hann hefur heitið því að berjast gegn spillingu, opna markaði og auka tengsl við Evrópu og Atlantshafsbandalagið. Hann nýtur aðallega stuðnings í vesturhluta landsins og í höfuðborginni Kiev. 500 kosningaeftirlitsmenn fylgjast grannt með framgangi kosninganna enda er mjög óttast að yfirvöld í Úkraínu reyni að hafa áhrif á úrslitin, Yanukovych í hag. Þá hefur Yushchenko einnig verið gagnrýndur fyrir að hvetja til óeirða en hann hefur beðið stuðningsmenn sína til að safnast saman í miðborg Kiev í kvöld til að mótmæla hugsanlegu kosningasvindli og sýna umheiminum hvar stuðningurinn liggur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×