Erlent

Nærri orðið stórslys

Litlu munaði að stórslys yrði á Gardermoen-flugvelli í Osló á mánudaginn, þegar aðeins munaði nokkrum sekúndum að tvær farþegaþotur SAS-flugfélagsins rækjust saman. Talið er að snarræði flugmanna hafi komið í veg fyrir slysið. Rannsóknarnefnd flugslysa í Noregi rannsakar nú þetta alvarlega flugatvik, sem varð á Gardermoen flugvelli síðastliðinn mánudagsmorgun, en vélarnar höfðu fengið heimild frá flugumferðarstjóra um að nota sömu flugbraut á sama tíma. Á fjórða hundrað farþegar voru um borð í vélunum, en önnur þeirra var að koma inn til lendingar frá Bjögvin og hin um það bil að taka á loft til Kaupmannahafnar. Mikil snjókoma var á flugvellinum þegar atvikið varð og skyggni slæmt, og er talið að vélarnar hafi verið aðeins nokkrum sekúndum frá stórslysi. Flugstjórar Kaupmannahafnar-vélarinnar, sem voru á leið inn á flugbrautina til að taka á loft, gerðu sér grein fyrir því í hvað stefndi, og náðu að stöðva vélina áður en hún kom inn brautina, sem Bergen-vélin var að fara að lenda á. Samkvæmt norska dagblaðinu, Verdens Gang, hefur flugumferðarstjóranum, sem veitti vélunum heimild, verið vikið tímabundið úr starfi. Atvikið þykir minna á það atvik, sem leiddi til flugslyssins á Linate-flugvellinum í Mílanó á Ítalíu í október árið 2001, þegar SAS farþegaþota og lítil Cessna-Citation rákust saman, með þeim afleiðingum að 118 manns fóust.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×