Erlent

Réðust inn á þingið

Stjórnarandstæðingar í Úkraínu reyndu að ráðast inn í þinghúsið í dag á meðan fjallað var um forsetakosningarnar umdeildu. Tugir þúsunda mótmæltu á götum úti níunda daginn í röð. Nú er þess beðið að Hæstiréttur Úkraínu úrskurði hvort forsetakosningarnar frá 21. nóvember séu gildar eða ekki. Stjórnarandstæðingar telja að yfirlýstur sigurvegari, Janúkovítsj, hafi sigrað með svindli. Núverandi forseti, Leoníd Kútsma, sagði í gær að úkraínska þjóðin geti endurtekið forsetakosningarnar, ef það sé eina leiðin til að leysa deilurnar. Meðan rætt var á þingi um gildi kosninganna ruddust mótmælendur, sem voru samankomnir þúsundum saman fyrir utan, inn í þinghúsið. Lögregla stöðvaði innrásina og fundi var frestað í þinginu. Stjórnarandstaðan í Úkraínu tilkynnti nú síðdegis að hún væri hætt þátttöku í samningaviðræðum vegna deilunnar. Ekki er búist við að Hæstiréttur úrskurði hvort kosningarnar séu gildar eða ekki fyrr en eftir nokkra daga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×