Erlent

Ópíumræktun í blóma

Ræktun ópíumvalmúa blómstrar sem aldrei fyrr í Afganistan og hefur aukist um 64 prósent frá því í fyrra. Þetta segir í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Þar kemur jafnframt fram að ræktun ópíumvalmúa er vaxtarbroddurinn í afgönsku efnahagslífi.  Talið er að 86 prósent af öllu ópíumi sem selt er í heiminum sé ræktað í Afganistan og að þessi landbúnaður jafngildi u.þ.b. 60 prósentum af löglegri landsframleiðslu. Stærstum hluta framleiðslunnar er breytt í heróín og óttast Sameinuðu þjóðirnar að landið geti orðið eiturlyfjaríki þar sem vellauðugir eiturlyfjabarónar ráði lögum og lofum. Samtökin skora því á hersveitir Bandaríkjamanna og NATO í landinu að grípa til hernaðaraðgerða gegn eiturlyfjasmyglhringjum, rétt eins og skæruliðum í landinu. Erfitt er hins vegar um vik þar sem ræktunin nú er stunduð í öllum landshlutum og er lífsviðurværi fjölda landsmanna sem ekki hafa að öðrum störfum að hverfa. Talið er að tíundi hver Afgani, eða 3,2 milljónir manna, vinni við valmúarækt í öllum 32 héruðum landsins og að ræktunin sé stunduð á 130 þúsund hektörum samanlagt. Ógnarstjórn talíbana, sem var steypt af stóli árið 2001, hafði nær alveg upprætt valmúaræktun í landinu þannig að hún hefur blossað upp aftur með ótrúlegum hraða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×