Innlent

Kannar hvort frumvarp sé þinglegt

Halldór Blöndal, þingforseti, hefur fallist á að kanna hvort nýja fjölmiðlafrumvarpið sé þinglegt, eða ekki. Stjórnarandstaðan gerði harða hríð að ríkisstjórninni, á þingi í gær. Afturköllun gamla fjölmiðlafrumvarpsins og framlagning hins nýja, var fordæmd og Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna spurði hvort frumvarpið væri þinglegt. Halldór Blöndal, féllst á að láta kanna hvort svo væri. Með því að tala um hvort eitthvað sé þinglegt, er átt við hvort málið sé tækt og hæft til umræðu og afgreiðslu á þingi, sem sagt hvort það uppfylli skilyrði sem sett eru í þingsköpum. Forseti þingsins er all oft beðinn um að úrskurða um hæfi í einhverjum málum, og er þess skemmst að minnast úr SPRON málinu, þegar stjórnarandstaðan efaðist um hæfi Péturs Blöndals alþingismanns, sem formanns efnahags- og viðskiptanefndar. Pétur var einn af stofnfjárfestum SPRON. Þegar forseti þingsins úrskurðar í slíkum málum getur hann leitað álits lögfróðra manna eða sérfræðinga, eftir því sem hann telur þörf á. Hann fellir svo úrskurð og er hann endanlegur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×