Erlent

Bretar samþykkja stjórnarskrá ESB

Evrópumálaráðherra Bretlands, dr. Denis MacShane, er þess fullviss að Bretar samþykki stjórnarskrá Evrópusambandsins þegar hún verður lögð fram í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann telur að stjórnarskráin verði rædd í þinginu fram á næsta vetur og að Verkamannaflokknum og Frjálslyndum demókrötum, sem báðir eru hlynntir Evrópusambandinu, muni ganga vel í kosningunum í Bretlandi næsta vor. Ráðherrann spáir því hins vegar að Íhaldsflokkurinn, sem verið hefur á móti ESB síðastliðin tíu ár, muni bíða mikinn ósigur. Síðan verði haldin þjóðaratkvæðgreiðsla í Bretlandi, eins og í Frakklandi og öðrum löndum, og segist MacShane þess fullviss að Bretar muni ekki vilja einangra sig frá Evrópu. Aðspurður hvort mögulegt sé að Bretar muni aldrei gefa pundið upp á bátinn segir ráðherrann hagkerfi landsins vera það besta í Evrópu sé litið á atvinnusköpun, hagvöxt og fjárfestingar í almenningsþjónustu og félagslegri þjónustu. Þeir séu þess vegna ekki mótfallnir því að skipta út pundinu en ákvörðun um slíkt verði að stjórnast ag hagsýnissjónarmiðum. Spurður um skoðun sína á Brussel, sem gjarnan er talið of mikið skriffinskubákn, segir MacShane færri starfa í Brussel og Birmingham-borg - jafnvel færri en í borgarstjórn Reykjavíkur. Hann viðurkennir að „báknið“ þar fari stundum í taugarnar á sér en sömu sögu sé að segja af ýmsum ráðuneytum í London. Ráðherrann flytur fyrirlestur á morgun í Norræna húsinu klukkan 12 um hina nýju stjórnarskrá Evrópu og áhrif á EES löndin. Sólveig Pétursdóttir, Jónína Bjartmarz og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir munu síðan skiptast á skoðunum við hann um efni fyrirlestrarins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×