Innlent

Vonast eftir forsætisráðherrastól

Halldór Ásgrímsson frestaði þingfundum í dag í fjarveru Davíðs Oddssonar forsætisráðherra. Halldór segir að hann voni að hann verði forsætisráðherra í haust eins og samið hafi verið um.  Öllum geta orðið á mistök og þannig las Halldór upp skjöl í rangri röð við þinglok í dag. Allt fór þó vel og sló Halldór á létta strengi þegar hann sagði greinilegt að hér væri viðvaningur á ferð. Hann sagðist vænta þess að honum væri það fyrirgefið þar sem hann væri að slíta þinginu í forföllum forsætisráðherra. Halldór sagði þetta verða betur gert næst. Fall er fararheill heyrðist utan úr sal og í ljósi aðstæðna má segja að Halldór hafi fengið óvænt að takast á við skyldur forsætisráðherra. Halldór talaði um næsta skipti en aðspurður hvort hann verði örugglega forsætisráðherra í haust svaraði hann: „Við skulum vona að svo sé. Það er það sem búið er að semja um og ég mun að sjálfsögðu standa undir þeim skyldum mínum, eins og ég hef verið vanur þann tíma sem ég hef verið í stjórnmálum.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×