Erlent

Blair ver umbreytingu flokksins

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Verkamannaflokksins, varði um helgina þá umbreytingu sem orðið hefur á Verkamannaflokknum frá valdatöku hans í flokknum. Blair sagði flokkinn hafa alla burði til að vinna þingmeirihluta þriðja kjörtímabilið í röð en það hefur aldrei gerst áður í breskri stjórnmálasögu. "Þetta hefur verið fjarlægur draumur margra kynslóða flokksmanna en nú er möguleikinn innan seilingar," sagði Blair á stefnumótunarþingi Verkamannaflokksins í Coventry um helgina. Þingkosningar fara fram á Bretlandi á næsta ári en Verkamannaflokkurinn komst til valda undir stjórn Blairs árið 1997 og vann síðan sögulegan stórsigur í þingkosningunum árið 2001. Blair tók við forystuhlutverki í Verkamannaflokknum af Neil Kinnock árið 1994 og umbreytti flokknum á skömmum tíma. Undir forystu Blairs fékk Verkamannaflokkurinn heitið "New Labour" og snéri um leið baki við sósíalískri hugmyndafræði sinni að verulegu leyti. Flokkurinn reyndi með góðum árangri að höfða til bresku miðstéttarinnar og atvinnulífsins. Árangurinn lét ekki á sér standa og vann Blair stórsigur í sínum fyrstu þingkosningum í forystu Verkamannaflokksins árið 1997. Að undanförnu hefur þó gætt mikillar óánægju innan flokksins, einkum þeirra sem tilheyra vinstriarmi flokksins, með stefnu stjórnar Blairs í veigamiklum málum. Gagnrýnendur Blairs segja hann hafa gleymt uppruna flokksins og þeim hefðum sem flokkurinn byggir á. Í ræðu sinni viðurkenndi Blair að órói væri innan flokksins en hann svaraði gagnrýninni fullum hálsi: "Ef hugmyndafræðileg gildi eiga sér ekki samsvörun í veruleikanum, þá eru þau andvana fædd," sagði Blair og bætti við: "Þegar við breytum stefnunni til að koma til móts við væntingar fólks í nútímanum, erum við ekki að hverfa frá gömlu gildunum, heldur að láta þau móta nýju stefnuna," sagði Blair.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×