Menning

Úrsmiður keyrir um á krílí

"Bíllinn minn var valinn einungis út af hagræði. Hann eyðir litlu og engir listar eru á hliðunum þannig að auðvelt verður að merkja hann versluninni minni, þegar ég rolast til þess," segir Rúnar I. Hannah, úrsmiður, eigandi verslunarinnar Úr að ofan og meðlimur í gleðisveitinni Breiðbandinu. "Bíllinn minn er fjögurra ára gamall Toyota Yaris sem ég keypti í sumar til að koma mér í og úr vinnu. Ég myndi segja að hans helsti kostur sé að hann er með geislaspilara og get ég því skellt geisladisknum Af fullum þunga með Breiðbandinu í hann hvenær sem er. Tæknilega séð þá er ég með Breiðbandið í bílnum," segir Rúnar og glottir við tönn þar sem húmorinn er aldrei langt undan. "Ég er mikið í bílnum þar sem ég bý í Keflavík en verslunin mín er á Laugaveginum. Ég nýti tímann í bílnum mjög vel því flestar hugmyndir mínar að textum og gríni fyrir Breiðbandið kvikna á Reykjanesbrautinni. Mér finnst rosalega gaman að keyra litla bíla og Yarisinn minn, sem ég kalla Krílið, er eins og frægt samkomuhús í Stuðmannamyndinni Með allt á hreinu - miklu stærri að innan en utan. Svo sit ég frekar hátt í bílnum og fæ því ekki á tilfinninguna að ég sé í svona litlum bíl." Rúnar hefur ekki brennandi áhuga á bílum sem er skrýtið þar sem það virðist loða við úrsmíðaiðnina. "Ég er í raun ekki mikill bílaáhugamaður, en mjög algengt er að úrsmiðir séu með bíladellu. Til dæmis voru bekkjarbræður mínir í úrsmíðaskólanum í Danmörku alltaf að tala um bíla og spá í draumabílinn. Eitt sinn þegar þeir spurðu mig hver væri minn draumabíll sagði ég að það væri Carlsberg flutningabíll fullur af bjór, helst með tengivagni líka. Ég held að það sé barasta ennþá draumabíllinn minn - nema í dag mætti hann vera fullur af Víking."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.