Innlent

Varð alvarleikinn ljós í fréttum

Eyrún Björnsdóttir, eiginkona Stefáns Gunnarssonar, íslenska friðargæsluliðans sem slasaðist í Kabúl á laugardag, segist hafa það þokkalegt eftir að hún náði í Stefán og gat talað við hann. Sprengjuárásin var á laugardagsmorgun en hún náði ekki tali af honum fyrr en í fyrrinótt. Eyrún segir að tekin verði ákvörðun í vikunni um hvort Stefán verði sendur heim. "Ég vonast til þess að hann komi bara heim," sagði Eyrún í viðtali við Fréttablaðið í gær. Stefán og Eyrún eiga tvö börn, tíu ára gamla stelpu og sextán ára strák, og segir hún þau sakna pabba síns mikið og hafa áhyggjur af honum. "Mér fannst þetta heldur óraunverulegt á laugardaginn. Mér varð alvarleikinn ljós þegar ég sá fréttirnar um kvöldið," sagði Eyrún. Afgönsk stúlka og bandarísk kona létust í árásinni. Stefán fékk sprengjubrot í fót og neðri hluta líkama og slasaðist mest þriggja Íslendinga sem urðu fyrir sprengjuárásinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×