Erlent

Reiði og sorg í Írak

Reiði og hneykslan ríkir í Írak í kjölfar þess að sýndar voru myndir af því þegar bandarískur hermaður skaut óvopnaðan, illa slasaðan Íraka til bana í Fallujah í gær. Fimm fórust og fimmtán slösuðust í bílsprengingu í morgun. Bílsprengjan var sprengd þegar bandarísk bílalest fór framhjá á útimarkaði í borginni Baiji í morgun. Bandarísku hermennirnir brugðust við með skothríð, og er ekki ljóst hvort að einhverjir hinna föllnu urðu fyrir henni. Í Írak og Arabaheiminum öllum krauma reiði og hneykslan vegna mynda af bandarískum hermanni, sem tók óvopnaðan, illa slasaðan Íraka af lífi í Fallujah í gær. Hermaðurinn er sagður þjást að stríðsþreytu og er málið til rannsóknar. Bardagar halda áfram í Fallujah, og var sprengjum varpað á hverfi þar sem uppreisnarmenn og skæruliðar eru enn sagðir halda til. Um hundrað bandarískir hermenn hafa fallið í átökum í þessum mánuði, sem þýðir að ekki hafa fleiri fallið frá því í apríl, þegar 135 fórust. Þá eru ótaldir óbreyttir borgarar sem hafa týnt lífi, en engar upplýsingar er að fá um fjölda þeirra. Allar líkur eru á því að konan, sem írakskir hryðjuverkamenn sjást skjóta til bana á myndbandsupptöku sem send var arabískri sjónvarpsstöð í gær, sé Margaret Hassan, yfirmaður CARE-mannúðarsamtakanna í Írak. Henni var rænt í síðasta mánuði og hún meðal annars neydd til að biðja sér griða á myndbandsupptöku. Sorg ríkir í Írak vegna drápsins, en Hassan, sem var írsk, bjó þar ásamt írökskum eiginmanni sínum í þrjátíu ár. Hún var þekkt fyrir starf að mannúðarmálum og helgaði líf sitt íröksku þjóðinni. Meðal þeirra sem syrgja Hassan, eru sjúklingar á einu meginsjúkrahúsinu í Bagdad, sem nutu góðs af starfi hennar. CARE-samtökin hafa nú hætt öllu starfi í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×