Erlent

Staðfesta ekki reikninga ESB

Tíunda árið í röð hafa endurskoðendur Evrópusambandsins neitað að votta reikninga þess. Ástæðan er líkt og undanfarin ár sú að ekki er nógu vel staðið að framkvæmd fjárlaga, útborgunum og bókhaldi. Gagnrýnin beinist hvort tveggja að Evrópusambandinu og aðildarríkjum þess. Útgjöldum er illa stjórnað og yfirsýn ekki nægilega góð, segir í skýrslu Endurskoðendaréttar Evrópusambandsins. Þar segir einnig að ekki hafi verið nóg að gert til að bregðast við vandamálum sem hafi lengi þekkst í starfsemi sambandsins. Fjárlagagerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er eitt af því sem sætir gagnrýni. Síðustu þrjú ár hafa útgjöld verið sjö til fimmtán prósentum minni en gert hafði verið ráð fyrir. Það hefur leitt til þess að meira en sautján þúsund milljarðar króna hafa safnast upp í fjárhirslum Evrópusambandsins, að því er fram kemur á vefnum EUObserver. Það jafngildir tveggja ára rekstri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×