Erlent

Langt komnir með þróun kjarnavopna

Íranar eru langt komnir með þróun flugskeyta sem geta borið kjarnaodda. Þessu heldur Colin Powell fram. Sérfræðingar segja líkur á að athygli Bandaríkjastjórnar beinist í vaxandi mæli að Íran.  Bandaríkjamenn telja sig hafa upplýsingar undir höndum sem benda til þess að Íranar vinni að þróun flugskeyta sem borið geta kjarnaodda. Colin Powell, fráfarandi utanríkisráðherra, kveðst hafa séð upplýsingar sem bendi til þess að Íranar séu nær því að ljúka þróunarvinnu en áður hefur verið talið. Löngum hafi verið vitað, að stjórnvöld í Íran vilji þróa slík vopn, og nú séu sannanirnar fyrir hendi. Hópur íranskra útlaga tók í sama streng í gær, og greindi frá því að stjórnvöld í Íran hefðu keypt úran sem nota mætti til smíði kjarnorkusprengju og auðgi það á stað, sem kjarnorkueftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna viti ekkert um. Að auki hafi stjórnvöld keypt upplýsingar um smíði kjarnorkuvopna frá pakistönskum vísindamanni, sem áður hefur viðurkennt að hafa selt Líbýustjórn samskonar upplýsingar. Bandaríkjamenn hafa um hríð þrýst á um að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna taki kjarnorkumál Írana til skoðunar og hafa nefnt viðskiptaþvinganir í því sambandi. Evrópuþjóðir hafa þó staðið í vegi fyrir þessum hugmyndum og gengu nýlega frá rammasamkomulagi sem gerir ráð fyrir að Íransstjórn hætti hluta kjarnorkuáætlunar sinnar. Íranar segjast einingis nota kjarnorku til raforkuframleiðslu. Alþjóða kjarnorkumálastofnunin staðfesti á þriðjudaginn, að Íranar hefðu ekki notað geislavirka málma til smíði vopna. George Bush, forseti Bandaríkjanna, nefndi Íran sem eitt af öxulveldum hins illa á sínum tíma og stjórnmálaskýrendur vestan hafs segja líkur á að Íran verði helsta vandamál utanríkisstefnu Bush á næsta kjörtímabili.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×