Erlent

Stjórnmálamenn eru óheiðarlegir

Stjórnmálamenn eru óheiðarlegir, að mati meirihluta þeirra sem tóku þátt í alþjóðlegri könnun sem birt var í morgun. 63 prósent aðspurðra í könnun World Economic Forum telja að stjórnmálamenn séu óheiðarlegir. Fimmtíu þúsund manns voru spurð um allan heim. 43 prósent telja að kaupsýslumenn séu almennt óheiðarlegir. Og til að bæta gráu ofan á svart er rúmur helmingur á því að hegðun stjórnmálamanna sé í bága við almenn siðalögmál. 39 prósent eru á því að þeir séu óhæfir. Ef einungis er litið til Vestur-Evrópu er ástandið örlítið betra, þó að Þjóðverjar virðist ekki hafa neitt álit á sínum stjórnmálamönnum. Nágrannar þeirra í Frakklandi virðast ekki kippa sér upp við hneykslismál og framhjáhald, því aðeins 36 prósent þeirra telja franska stjórnmálamenn óheiðarlega. Þeir sem þátt tóku í könnuninni virðast einnig hafa töluverðar áhyggjur af framtíðinni og þróun mála í heiminum. 45 prósent eru á því að heimurinn yrði hættulegri í framtíðinni og um þriðjungur var á því að á næstu árum myndi hættan aukast töluvert. Afríkubúar voru þó almennt jákvæðari en aðrir: þar býst helmingur við betri tíð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×