Erlent

Karl prins vekur reiði Breta

Karl prins vakti mikla óánægju í Bretlandi þegar efni minnismiða varð opinbert, þar sem hann fer hörðum orðum um leti, hæfileikaleysi og óeðlilegan metnað landa sinna. "Hvernig stendur á því að allir telja sig geta náð miklu lengra en hæfileikar þeirra gefa tilefni til?" spyr Karl prins í minnismiðanum og svarar sér sjálfur. "Þetta er vegna námsmenningar í skólum sem er afleiðing kerfis sem snýst aðeins um börn og neitar að viðurkenna að einhver hafi ekki staðið sig." "Fólk heldur að allir geti orðið poppstjörnur, dómarar, frábærir þáttastjórnendur í sjónvarpi eða miklu betri þjóðhöfðingjar án þess að leggja á sig nokkra vinnu eða búa yfir nokkrum hæfileikum. Þetta er afleiðing félagslegrar draumsýnar sem telur að hægt sé að genabæta fólk eða betrumbæta það með félagslegum aðgerðum, þvert á það sem sagan hefur kennt okkur." Lesið var upp úr minnisblaðinu í réttarhaldi vegna málshöfðunar Elaine Day, fyrrum starfsmanns hallarinnar, sem telur sig hafa orðið fórnarlamb kynjamisréttis þegar hún var rekin úr starfi. Hún hafði lagt til að háskólamenntaðir aðstoðarmenn gætu unnið sig upp í starfi og var það kveikjan að minnismiða Karls. "Mér finnst hann satt að segja gamaldags og úr tengslum, hann skilur ekki hvað er í gangi í breska menntakerfinu," sagði Charles Clarke menntamálaráðherra um prinsinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×