Erlent

77 ára kona fær dauðadóm

Hæstiréttur Japans hefur staðfest að sjötíu og sjö ára gömul kona skuli hengd fyrir morðið á eiginmanni sínum og kunningjakonu. Konan var dæmd til dauða fyrir að hafa árið 1987 fengið ættingja til liðs við sig til að drepa eiginmanninn, gegn því að þeir fengju hlut af þrjátíu milljón króna líftryggingu hans. Fimm árum síðar gerði hún samning við tryggingasölumann um að myrða sextuga konu, einnig til þess að komast yfir líftryggingu. Morðkvendið sótti um náðun vegna síns háa aldurs en hæstiréttur hefur nú synjað þeirri beiðni. Japan og Bandaríkin eru einu hinna svokölluðu ríku þjóða sem enn halda í dauðarefsingu. Að minnsta kosti fjörutíu og sex hafa verið teknir af lífi í Japan frá árinu 1993. Japanar hafa verið sérstaklega gagnrýndir fyrir það að hinir dauðadæmdu fá ekki að vita hvenær aftakan fer fram, fyrr en einni eða tveimur klukkustundum áður en að henni kemur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×