Erlent

Mannréttindi einskis virt

"Samhliða því að bardagar í Falluja og annars staðar halda áfram virðist hver nýr dagur bera með sér ný merki algjörrar fyrirlitningar fyrir grundvallaratriðum mannúðar, þess að vernda mannslíf og mannlega virðingu," sagði Pierre Kraehenbühl, aðgerðastjóri Alþjóðanefndar Rauða krossins. Hann segir allar stríðandi fylkingar sekar um sömu fyrirlitninguna á mannúðarsjónarmiðum. "Við höfum miklar áhyggjur af þeim hörmulegu áhrifum sem bardagar í Írak hafa á almenning í landinu," sagði Kraehenbühl sem var óvenju harðorður í garð stríðandi fylkinga. Hann fordæmdi meðal annars gíslatökur, morðið á hjálparstarfsmanninum Margaret Hassan og það hvernig bandarískur hermaður myrti vopnlausan, særðan vígamann. Íbúar Mosul bjuggu sig í gær undir meiriháttar árásir bandarískra og íraskra hermanna gegn vígamönnum í borginni. Hundruð sérþjálfaðra íraskra hermanna leituðu vígamanna í gamla hluta borgarinnar þar sem þeir telja meirihluta vígamanna í borginni hafa komið sér fyrir. Vera vígamanna og hermanna í gamla borgarhlutanum og undirliggjandi hætta á hörðum bardögum gerir það að verkum að margir íbúar þar treysta sér varla út fyrir hússins dyr. "Ef ég ætla út á götu til að kaupa kíló af tómötum verð ég að hafa börnin mín með mér svo Bandaríkjamenn haldi ekki að ég sé uppreisnarmaður og skjóti mig," sagði Ahmed Mahmud. Barátta vígamanna verður sífellt meiri hindrun fyrir uppbyggingarstarf í súnníþríhyrningi Íraks, sagði William Taylor sem hefur yfirumsjón með uppbyggingarstarfi Bandaríkjanna í Írak. "Á svæðum súnnímúslima og í Mosul er ástandið verra í dag en það var og við eigum í meiri vandamálum með öryggismál en áður," sagði Taylor og bætti við. "Við óttumst að á sumum svæðum, en ekki öllum, verði erfitt að halda kosningar." Hann sagði að til þess að auka líkur á að hægt yrði að halda kosningar yrði að efla uppbyggingarstarf.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×