Erlent

Endir bundinn á ógnaröldina

Stríðandi fylkingar í Súdan undirrituðu í morgun heit um að binda enda á ógnaröldina í landinu fyrir árslok. Sameinuðu þjóðirnar heita í staðinn Súdönum friðargæslu og neyðaraðstoð. Hjálparsamtök segja hjálpina koma of seint. Yfir tvær miljónir Súdana hafi látið lífið vegna borgarastríðs sem hefur geisað í rúm 20 ár milli araba í norðurhluta landsins og annarra þjóðflokka í suðri. Fyrir tveimur árum hófst uppreisn í Darfur-héraði sem stjórnvöld svöruðu með því að styðja herskáa araba, sem hafa farið um með morðum og hrakið milljónir manna á flótta, meðal annars til nágrannaríkisins Chad. Þá er talið að allt að 70 þúsund manns hafi týnt lífi. Leiðtogi uppreisnarmanna í suðurhluta landsins og varaforseti Súdans komu báðir fyrir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í morgun og undirrituðu samkomulag um að semja frið fyrir árslok. Varaforsetinn, Ali Osman Taha, segir þetta til þess fallið að finna pólitískt, efnahagslegt og félagslegt jafnvægi til að tryggja einingu. „Að okkar áliti gefa öll atriði þessara samninga Súdan tækifæri til að vera áfram sameinað land,“ segir Taha. Sameinuðu þjóðirnar heita á móti aðstoð í formi niðurfellinga skulda, neyðaraðstoðar og friðargæslu. Hjálparsamtök segja hins vegar að samkomulagið sé of óljóst, tíminn sé að renna út og aðstoð hefði átt að berast fyrir löngu síðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×