Erlent

ESB ekki á dagskrá í Noregi

Þrátt fyrir að meirihluti Norðmanna sé fylgjandi aðild að Evrópusambandinu og tveir stærstu stjórnmálaflokkar Noregs einnig, þá eru Evrópumálin ekki á dagskrá í norskri stjórnmálaumræðu. Norðmenn höfnuðu aðild að Evrópusambandinu fyrir tíu árum. Síðan hefur jafnan verið mjótt á mununum og á þessu ári hafa þeir sem vilja inn í ESB haft forskot á hina. Könnun sem birtist í síðustu viku sýndi að 56% Norðmanna er fylgjandi inngöngu í ESB en 44% eru því mótfallin. Kosið verður í Noregi næsta haust og segja má að þegar hafi myndast tvær fylkingar sem berjast um stjórnartaumana. Annars vegar núverandi stjórnarflokkar: Kristilegi þjóðarflokkurinn og Hægri og svo hins vegar stjórnarandstaðan: Verkamannaflokkurinn og Sósíaldemókratar. Það er athyglisvert að hvort sem þeir eru fylgjandi inngöngu í ESB eða ekki þá eru allir þeir norsku þingmenn sem Stöð 2 ræddi við sammála um það að Evrópumálin verða ekki á dagskránni í norskri pólitík á næstunni. Ástæðan er sú að þrátt fyrir að tveir stærstu stjórnmálaflokkar Noregs, Verkamannaflokkurinn og Hægri flokkurinn, séu fylgjandi ESB aðild, þá er líkt komið á með Íslendingum og Norðmönnum að því leyti að afstaðan til Evrópumálanna gengur þvert á önnur mál og hefðbundna hægri/vinstri skiptingu. Þessir tveir flokkar eiga því ekki samleið í neinu öðru stóru máli. Þeir liggja hvor í sinni fylkingunni og útilokað að þeir taki höndum saman, myndi ríkisstjórn og sigli Noregi í evrópska höfn. Olav Akselsen, Norska Verkamannaflokknum, telur að þetta verði ekki ofarlega á baugi ef ekkert gerist. Hann fagnar því að stuðningur sé hjá þjóðinni við inngöngu í ESB en er hræddur um að ef undirbúningur verði ekki nægur verði sagt nei einu sinni enn. Oft er talað um að Evrópuumræðan í Noregi móti Evrópuumræðuna á Íslandi en pólitískar aðstæður þessara nágrannaþjóða eru nú þannig, að hugsanlegt er að þetta sé að snúast við. Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, segir það vera inni í myndinni. Ef alvöru umræða hefjist á Íslandi um inngöngu í ESB hafi það áhrif í Noregi. „En okkur liggur ekkert á því áður en umræðan hefst hér í Noregi verðum við að vita hvað kemur út úr því svo við sækjum ekki um í þriðja sinn og fáum enn einu sinni höfnun,“ segir Bondevik sem býst við að umræðan fari fram á seinni hluta næsta kjörtímabils, þ.e. á árunum 2007-2009.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×