Erlent

Bannar birtingu kosningaúrslitanna

Hæstiréttur Úkraínu hefur bannað birtingu úrslita forsetakosninganna og skoðar kæru leiðtoga stjórnarandstöðunnar um kosningasvik. Urður Gunnarsdóttir, talsmaður ÖSE, segir mikinn baráttuvilja í almenningi í Úkraínu.  Hundruð þúsunda héldu áfram að mótmæla úrslitum forsetakosninganna í Kænugarði í dag, fjórða daginn í röð, en mikil reiði og ólga hefur verið meðal almennings eftir að Viktor Janúkóvits forsætisráðherra var lýstur sigurvegari kosninganna. Viktor Jútsjenkó, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, sem sakað hefur stjórnvöld landsins um víðtæk kosningasvik, kærði meint svik til hæstaréttar Úkraínu og hefur rétturinn ákveðið að banna birtingu kosningaúrslitanna. Mótmælendur hafa verið hvattir til að hindra aðgang að þinghúsinu og öðrum opinberum byggingum. Urður Gunnarsdóttir, talsmaður Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, sem hefur verið við kosningaeftirlit í Kænugarði síðustu daga, segir ástandið í borginni óvenjugott miðað við aðstæður. Hún segir alla fara um með appelsínugula borða á sér eða á bílum sínum til að lýsa yfir stuðningi við Júsjenko. Janúkovítsj hafi hins vegar lítinn stuðning í Kænugarði og að sögn Urðar hafa stuðningsmenn hans nánast algjörlega haldið sig til hlés. Urður segir það eiga eftir að koma í ljós hvort almenningur fari í allsherjarverkfall eins og skorað hafi verið á þá að gera. Enn sem komið er séu engin merki verkfallsins sjáanleg. Forseti Rússlands vísar því á bug að stjórnvöld í Moskvu hafi þrýst á úkraínsk stjórnvöld fyrir kosningarnar. Í dag sagði Vladimir Pútín, forseti Rússlands, að þau hefðu engan siðferðilegan rétt til að hrekja stórt evrópskt ríki út í svo alvarlega upplausn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×