Erlent

Mótmæli hjá starfsmönnum Jaguar

Hundruð starfsmanna sportbílaframleiðandans Jagúar mótmæltu því um helgina að framleiðslu bílanna yrði hætt í stærstu verksmiðju fyrirtækisins í Englandi. Jagúar bílaframleiðslan í Coventry hefur verið eitt helsta stolt borgarinnar í langan tíma. Eigendur Jagúar boðuðu breytingar í september síðastliðnum, en samkvæmt þeim verður framleiðslu bifreiðanna í Coventry hætt, og hún sameinuð starfsemi fyrirtækisins í Birmingham. Mikil reiði er í mönnum vegna breytinganna og óttast margir um afkomu sína. Verkalýðsfélög efndu til mótmæla og tóku bæði starfsmenn og enskir bílstjórar, víða að úr Englandi, þátt í þeim. Mótmælin hófust við Bílasögusafnið í Coventry og var markmiðið að þrýsta á Ford bílaframleiðandann, aðaleiganda Jagúar, til þess að draga áformin til baka. Verkalýðsfélögin gagnrýndu forsvarsmenn Ford fyrir að hafa ekki haft samráð við þau um aðgerðirnar og telja engin rök komin fram, sem réttlæti lokun verksmiðjunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×