Erlent

Borgarastyrjöld vofir yfir

Borgarastyrjöld er yfirvofandi í Úkraínu eftir að héraðsstjórnir í austurhluta landsins hótuðu að skilja sig frá vesturhlutanum og krefjast sjálfsstjórnar, vegna deilunnar um forsetakosningarnar. Stjórnmálakreppan í Úkraínu stigmagnast og halda tugþúsundir áfram að mótmæla úrslitum forsetakosninganna, sjöunda daginn í röð. Mótmælendur hafa hindrað aðgang að stjórnarbyggingum í Kænugarði og lýst yfir stuðningi við Júsjenkó, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sem segir að Janúkóvits, forsætisráðherra, hafi verið tryggður sigur í kosningunum með svindli. Hæstiréttur Úkraínu tekur á morgun fyrir kæru Júsjenkós, um meint kosningasvik, en fátt bendir til þess að lausn sé í sjónmáli. Kútsma, fráfarandi forseti, fundaði með öryggisráði landsins vegna ólgunnar. Hann sagði að yfirvöld ættu að gera allt til þess að reyna að koma í veg fyrir að hættuástand skapaðist. Mikilvægast af öllu væri að viðræður um lausn hæfust strax. Janúkóvits, forsætisráðherra, nýtur mikils stuðnings í austurhluta landsins, en Júsjenkó í vesturhlutanum, sem þykir hallur undir vesturveldin. Héraðsstjórnir í austurhlutanum hafa hótað að skilja sig frá vesturhlutanum og krefjast sjálfsstjórnar, verði úrslit forsetakosninganna ekki staðfest. Kvasníevskí, forseti Póllands, sem er í Kænugarði, til að reyna að miðla málum, varar við sundrungu landsins og Evrópusambandið telur best að forsetakosningarnar verði endurteknar sem fyrst. Þær hugmyndir hafa vakið mikla reiði meðal stuðningsmanna forsætisráðherrans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×