Erlent

Reynt að ráða Bush af dögum

Stærsti skæruliðahópur í Kólumbíu áformaði að ráða George Bush af dögum þegar hann var þar í heimsókn á mánudaginn var. Ströng öryggisgæsla er talin hafa komið í veg fyrir tilræðið. George Bush, forseti Bandaríkjanna, kom ásamt Lauru, eiginkonu sinni, til Cartagena í Kólumbíu síðastliðinn mánudag til að funda með ráðamönnum landsins. Leiðtogar FARC-byltingarhersins, sem er stærsti skæruliðahópur í Kólumbíu, höfðu samkvæmt upplýsingum kólumbísku leyniþjónustunnar, skipað hersveitum sínum að myrða Bush, en herinn hefur lengi gagnrýnt bandarísk stjórnvöld fyrir afskipti af áratugalangri borgarastyrjöld og öðrum innanríkismálum. Varnarmálaráðherra Kolombíu segir að nausynlegar ráðstafanir hafi verið teknar þegar vitað var að Bush kæmi, hins vegar hafi þeir eftir á fengið að vita það að skæruliðar hyggðust ráða Bush af dögum. Það hafi hins vegar ekki gengið upp og stjórnvöldum í Kólombíu hafi tekist að sýna umheiminum að landið væri öruggt. Öflug öryggisgæsla er talin hafa komið í veg fyrir tilræðið, en fyrir utan fjölda lífvarða bandaríkjaforseta, hélt um fimmtán þúsund manna lið kólumbískra öryggissveita uppi ströngu eftirliti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×