Erlent

Kosningarnar fyrir Hæstarétti

Hæstiréttur Úkraínu hóf í morgun að fjalla um forsetakosningarnar umdeildu sem fram fóru í landinu fyrir rúmri viku en hann á að úrskurða hvort þær skuli ógildar. Þúsundir stuðningsmanna beggja fylkinga standa með hrópum og köllum við réttinn. Ólga vex enn í landinu með hótunum um aðskilnað og sjálfsstjórn í austurhluta landsins. Spennan er slík í landinu að óttast er að upp úr sjóði. Stjórnarandstaðan vill láta ógilda kosningarnar vegna kosningasvika og boða til nýrra þann 12. desember. Myndband sem sýnt var í fjölmiðlum í dag sýnir eyðileggingu á kjörgögnum og kjósendur, sem ekið er um í bíl merktum stjórnvöldum á milli margra kjörstaða, og kjósendum eru réttir fleiri en einn kjörseðill. Stuðningsmenn Janúkovítsj, sem yfirkjörstjórn hefur lýst sigurvegara, hóta hins vegar að krefjast sjálfstjórnar í austurhluta landsins ef Júsjenko, keppinautur hans og stjórnarandstæðingur, verður lýstur sigurvegari en hann nýtur stuðnings Vesturlanda. Í gær samþykktu fulltrúar í meirihluta héraða bæði í suðurhlutanum og austurhlutanum að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfsstjórn. Dómara Hæstaréttar Úkraínu bíður nú erfitt verk undir gríðarlegum pólitískum þrýstingi. Að sögn bandarískra stjórnmálaskýrenda hafa úrskurðir dómstólsins þó oft verið á öndverðum meiði við skoðanir stjórnvalda. Stuðningsmenn stjórnarandstæðingsins Júsjenko héldu áfram kröftugum mótmælum í morgun og standa nú þúsundum saman fyrir utan Hæstarétt. Þar eru einnig saman komnir stuðningsmenn Janúkovítsj. Báðir hópar hrópa nöfn sinna manna og veifa flöggum. Það gæti tekið Hæstarétt nokkra daga að komast að niðurstöðu um málið. Á meðan hafa leiðtogar fjölda landa lýst yfir áhyggjum sínum af ólgunni í landinu. Yfirmaður utanríkismála Evrópusambandsins, Javier Solana, sem hefur reynt að miðla málum, sagði í morgun að það væri grundvallaratriði að halda landinu saman og hótanir um sjálfsstjórn væru ekki vel séðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×