Erlent

Efnahagshrun blasir við

Efnahagur Úkraínu er að niðurlotum kominn og þolir ekki til lengdar að þjóðfélagið sé í lamasessi meðan deilt er um hver er réttkjörinn forseti landsins. Þetta sagði Leoníd Kútsjma, fráfarandi forseti Úkraínu. "Fáeinir dagar til viðbótar og fjármálakerfið gæti hrunið eins og spilaborg," sagði hann. Efasemdir ríktu í gær um efnahag landsins, niðurstöðu forsetakosninganna og samheldni Úkraínu í ljósi þess að forystumenn í rússneskumælandi héruðum í austurhluta landsins hótuðu því að lýsa yfir sjálfstjórn ef úrslit forsetakosninganna yrðu ekki látin standa. "Hvorki forsetinn né ríkisstjórnin geta tekið ábyrgð á þessu," sagði Kútsjma um yfirvofandi efnahagshrun. Hann sagði ástæðu hugsanlega efnahagshruns þá að ríkið virkaði ekki sem skyldi meðan héruð þess deildu hollustu sinni milli Viktor Júsjenkó, forsetaframbjóðanda stjórnarandstöðunnar, og Viktor Janukovitsj forsætisráðherra. Á meðan væru hvorki skattar né tollar innheimtir eins og þó bæri að gera. Hæstiréttur fjallaði um kæru Júsjenkó um stórfellt kosningasvindl stuðningsmanna Janukovitsj. Fyrirfram var talið að Hæstiréttur kynni að úrskurða um lögmæti kosninganna í gær en þegar leið á daginn lýsti forseti réttarins því yfir að bið yrði á því. Hann nefndi ekki hvenær niðurstaðan lægi fyrir. Embættismenn frá meira en helmingi þeirra 27 héraða sem mynda Úkraínu hafa lýst því yfir að þeir muni leita eftir meiri sjálfstjórn. Hvort tveggja forsetinn og varnarmálaráðherrann lögðust gegn þessu í gær. "Sama hverjar kringumstæðurnar eru mun úkraínski herinn tryggja stöðugleika, fullveldi og landsvæði Úkraínu," sagði Oleksandr Kuzmuk varnarmálaráðherra. Hann sagði umræðu um sjálfstjórn eða sjálfstæði einstakra héraða valda miklum áhyggjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×