Erlent

12 ára afganskur drengur drepinn

Tólf ára drengur lést þegar bandarískir öryggisverðir skutu inn í hóp þúsund mótmælenda í Afganistan í gær. Bandaríkjaher hefur hert aðgerðir sínar gegn al-Kaída liðum í Afganistan síðastliðnar vikur. Á laugardag voru sex handteknir í borginni Jalalabad, þar á meðal ung kona. Var henni haldið yfir nótt sem þykir mikil vanvirðing í menningarheimi hennar. Var hún ekki látin laus fyrr en eftir kvartanir yfirvalda í Kabúl. Á annað þúsund manns tóku þátt í mótmælum vegna handtöku hennar. Fólkið lokaði veginum milli borgarinnar Jalalabad og landamæra Pakistans, kveikti elda og kastaði grjóti að bílum. Sjónarvottar segja að öryggisverðir hafi þá skotið á hópinn með þeim afleiðingum að einn særðist og 12 ára drengur lést. Bandaríska sendiráðið í Kabúl segir að handtaka konunnar hefði verið hluti af langvarandi aðgerðum gegn al-Kaída en maður hennar hafi starfað með þeim. Atvikið þykir sýna glögglega hversu takmarkað innsæi í menningarheim Afgana getur virkað sem olía á eld. Hersveitirnar bandarísku standa frammi fyrir þeim vanda að ráðast gegn grunuðum al-Kaída liðum, án þess að ýta undir samúð með þeim og vekja reiði venjulegra borgara.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×