Erlent

Deilan í Úkraínu harðnar

Deilur stríðandi fylkinga í Úkraínu hörðnuðu heldur í gær þegar talsmaður stjórnarandstöðuleiðtogans Viktor Júsjenkó lýsti því yfir að stjórnarandstæðingar væru hættir samningaviðræðum við Viktor Janúkovitsj, forsætisráðherra, og samherja hans um lausn deilunnar. Stjórnarandstæðingar reyndu í gær að fá þing landsins til að lýsa vantrausti á Janúkovitsj en tillaga þess efnis fékk ekki brautargengi. Júsjenkó krafðist þess að Janúkovitsj léti af völdum og að í stað ríkisstjórnar hans tæki þjóðstjórn við völdum til bráðabirgða. Erlendir frammámenn flykkjast nú aftur til Úkraínu í von um að koma viðræðum í gang á nýjan leik. Rússneskir sendimenn, Javier Solana, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins og forsetar Póllands og Litháens eru allir á leiðinni til Úkraínu eða væntanlegir þangað í dag. Janúkovitsj sagði í gær að ef kosning hans yrði staðfest myndi hann bjóða Júsjenkó embætti forsætisráðherra. Yrði kosningin ekki staðfest myndi hann leggja til nýjar kosningar þar sem hvorki hann né Júsjenkó væri í framboði. Júsjenkó hafnaði hvoru tveggja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×