Innlent

Hyggjast kæra meintan fjárdrátt

Stjórn Leigjendasamtakanna hyggst kæra fyrrverandi formann samtakanna, til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra vegna meints fjárdráttar og skjalafals. Jón Kjartansson frá Pálmholti situr í stjórn Leigjendasamtakanna. Hann segir að þriggja milljóna króna sé saknað úr rekstri samtakanna og fá þurfi úr því skorið hver beri ábyrgð á því. Jón segir að styrkir sem samtökin fengu á sínum tíma hafi verið lagðir inn á persónulegan reikning formannsins. Þar á meðal séu styrkir frá félagsmálaráðuneytinu og Reykjavíkurborg. Maðurinn, sem stjórnin hyggst kæra, segir að samkvæmt samkomulagi hans og stjórnar hafi hann átt að fá greidda mjög hóflega þóknun. Styrkir sem samtökin hafi fengið hafi farið í greiðslu þóknunarinnar auk reksturs samtakanna. Það sé einfeldningsháttur að halda því fram að hann hefði átt að vera launalaus í þau tæpu tvö ár sem hann starfaði fyrir samtökin. Því sé kæran tilhæfulaus. Jón segir að formaðurinn hafi lokað skrifstofu samtakanna síðastliðinn vetur án þess að bera það undir stjórnina og síðan hafi öll gögn um fjárhag félagsins horfið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×