Innlent

Ökumaðurinn líklega fundinn

Lögreglan í Keflavík telur sig vera búna að finna manninn sem ók niður konu í Sandgerði fyrir tæpri viku og stakk af. Konan var á leið heim til sín að loknum vinnudegi þegar ekið var á hana á Strandgötu. Hún slasaðist talsvert, var rænulítil þegar að var komið og var hún flutt á slysadeild Landspítalans og síðan lögð inn á spítalann. Síðan hefur lögreglan haldið uppi víðtækri eftirgrennslan, enda telur hún nær ómögulegt að ökumaður hafi ekki orðið var við að aka á eitthvað. Eftir viðtöl við fjölda fólks fór hringurinn að þrengjast utan um tiltekinn bíl og var eigandi hans kallaður til yfirheyrslu og bíllinn skoðaður. Skemmdir eru á bílnum, sem hugsanlega má rekja til þess að rekast á konuna, og ökumaður viðurkennir að hafa verið á ferð á þeim stað og þeirri stundu sem slysið varð. Eftir því sem fréttastofan kemst næst segist hann hins vegar ekki vita til þess að hafa ekið á konuna, en þó hafi hann rekist á eitthvað. Málið er því enn í rannsókn þótt yfirgnæfandi líkur bendi til þess að ökumaður og bíll séu fundnir. Konan er á batavegi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×