Innlent

Rannsókn lögreglu engu skilað

Rannsókn lögreglunnar á Blönduósi á því hver kveikti í atvinnuhúsnæðinu Votmúla aðfaranótt þriðjudagsins 28. september hefur enn engu skilað. Kristján Þorbjörnsson yfirlögregluþjónn segir að enginn sé grunaður þó ummerki bendi til þess að kveikt hafi verið í húsinu. "Það hafa engar nýjar upplýsingar borist," segir Kristján. "Við erum búnir að skoða allar vísbendingar sem upp hafa komið án þess að það hafi skilað nokkru. Rannsóknin heldur samt áfram og við erum alls ekki úrkula vonar um að þetta mál upplýsist." Þrjú fyrirtæki voru með starfsemi í þeim hluta hússins sem brann til kaldra kola. Það voru matvælaverksmiðja Vilkó, pakkhús kaupfélagsins og Bílaþjónustan. Gríðarlegur eldmatur var í húsinu. Í pakkhúsinu voru meðal annars gaskútar sem sprungu með miklum hvelli, svo miklum að íbúar í nágrenninu vöknuðu. Tjónið sem varð vegna brunans var metið á ríflega hundað milljónir króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×