Innlent

Lést af völdum hnefahöggs

Maður á sextugsaldri lést á sjúkrahúsi í gær af völdum höfuðhöggs. Maðurinn hafði verið að skemmta sér með eiginkonu sinni og var komið undir lokun þegar hann var sleginn þungu höggi neðarlega á kjálka á veitingastaðnum Ásláki í Mosfellsbæ. Hálfþrítugur maður hefur játað að hafa lent í átökum á veitingastaðnum. Sá hefur verið úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald. Ekki er vitað til að sá látni og sá sem er í gæsluvarðhaldi hafi þekkst og ekki er vitað til að þeir hafi átt nokkur samskipti á Ásláki áður en voðaatburðurinn varð. Málavextir voru þeir að glas hafði brotnað í anddyri staðarins og var dyravörður að sópa upp glerbrotin. Maðurinn var að bægja frá gestum á meðan til að enginn meiddist þegar árásarmaðurinn, sem var að fara út af staðnum, sló hann fyrirvaralaust. Við það missti maðurinn andann, skjögraði aðeins og féll svo í gólfið. Óskað var eftir sjúkrabíl, sem kom innan skamms. Ekki tókst að bjarga lífi mannsins og lést hann á gjörgæsludeild eftir hádegi í gær. Árásarmaðurinn, sem var ölvaður, var handtekinn í nágrenni veitingastaðarins skömmu eftir árásina. Hann er ekki kunnur að ofbeldisverkum svo vitað sé. Yfirheyrslur fóru fram hjá lögreglu í gær og voru starfsmenn veitingastaðarins meðal hinna yfirheyrðu en veitingastaðurinn var lokaður í gær vegna málsins. Dánarorsök fæst staðfest eftir réttarkrufningu sem fer fram næstu daga. Lögreglan í Reykjavík fer með rannsókn málsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×