Innlent

Niðurstaða krufningar væntanleg

Búist er við að bráðabirgðaniðurstaða úr krufningu mannsins, sem lést eftir hnefahögg við veitingahús í Mosfellsbæ í fyrrinótt, liggi fyrir á morgun. Lögregla hefur yfirheyrt fjölmörg vitni. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefjast yfirheyrslur yfir árásarmanninum á morgun en lögregla vildi klára yfirheyrslur yfir öllum vitnum áður en það yrði gert. Hann hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 16. desember en farið var fram á tveggja vikna gæsluvarðhald yfir honum. Dómari stytti það um viku en lögregla óskaði eftir tveimur vikum á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Þar á bæ gera menn ráð fyrir að óska eftir framlengingu ef þörf þykir. Búist er við að niðurstaða bráðabirgðakrufningar liggi fyrir á morgun. Þetta er í annað sinn á mjög skömmum tíma sem maður deyr af völdum hnefahöggs en ekki er nema um mánuður frá því danskur maður lést eftir höfuðhögg á Suðurnesjum. Maðurinn sem lést hét Ragnar Björnsson. Hann var fimmtíu og fimm ára gamall og til heimilis að Efri-Reykjum í Mosfellsbæ. Hann lætur eftir sig eiginkonu og þrjá syni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×