Erlent

Efast um sjálfstjórn Íraka

Því hefur víðast verið fagnað að Bandaríkjamenn hafi látið Írökum eftir að stjórna landi sínu, tveimur dögum fyrr en búist var við. Hins vegar efast margir um að Írakar hafi fengið raunverulega sjálfstjórn. George Bush, forseti Bandaríkjanna, og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands tókust í hendur og brostu þegar þeim var tilkynnt að Paul Bremer, landstjóri í Írak, hefði afhent bráðabirgðaríkisstjórn Íraks bréf þess efnis að hernámi landsins væri lokið og Írakar aftur teknir við stjórn í landi sínu. Þetta var gert tveimur dögum á undan áætlun til þess að forðast hugsanlega árás hryðjuverkamanna ef þetta hefði verið gert opinberlega. Bush og Blair eru báðir á leiðtogafundi NATO í Tyrklandi. Aðildarríki bandalagsins, sem og arabaríki sem eru vinveitt Bandaríkjunum, segja að þetta sé mikilvægt skref í þá átt að koma Írak aftur inn í samfélag þjóðanna. Hins vegar hafa margir lýst efasemdum um að valdaafsal Pauls Bremers sé raunverulegt. Bent er á að 160.000 erlendir hermenn séu áfram í Írak og það geti varla talist mikið sjálfstæði. Iyad Allawi, forsætisráðherra Íraks, hefur þegar svarið embættiseið. Í ávarpi til þjóðarinnar hvatti hann landsmenn til þess að sameinast gegn erlendum hryðjuverkamönnum sem myrði börn þeirra og reyni að eyðileggja landið. Ekki er talið ólíklegt að Allawi muni setja herlög til þess að auðvelda baráttuna gegn hryðjuverkamönnum. Þrátt fyrir orð forsetans um erlenda hryðjuverkamenn er nokkuð ljóst að Írakar eru fjölmennir í röðum þeirra sem berjast gegn ríkisstjórninni og veru erlends herliðs í landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×