Erlent

Sendinefnd ber kennsl á lík

Írösk sendinefnd er komin til Bosníu til að læra, af biturri reynslu á því svæði, hvernig skuli bera kennsl á lík sem grafin hafa verið í fjöldagröfum. Tæplega þrjú hundruð fjöldagrafir hafa fundist í Írak. Með för sinni til Bosníu vilja íröksku fulltrúarnir læra af þeirri ömurlegu og sársaukafullu reynslu, sem setti mark sitt á Bosníu, í stríðinu sem þar geysaði á árunum 1992 til 1995, en tugþúsundir múslima voru myrtir í Bosníu-deilunni. Með DNA-tækni hefur tekist að bera kennsl á þúsundir, sem létu lífið í deilunni, en sama tækni var notuð til að bera kennsl á þá sem fórust í hryðjuverkaárásunum á tvíburaturnanna í New York fyrir þremur árum. Meðal þess sem Írakarnir heimsækja eru rannsóknarstofur Alþjóðanefndar um þá sem saknað er, sem staðsett er í Sarajevó, og er vonast til að það verði til þess að hjálpa yfirvöldum að komast að örlögum hundruð þúsunda einstaklinga, sem hurfu á tuttugu og fjögurra ára valdatíma Saddams Husseins, fyrrverandi forseta Íraks. Alþjóðleg mannréttindasamtök áætla að meira en 300 þúsund manns hafi verið drepnir á þeim tíma. Evrópskir sérfræðingar hafa hingað til ekki viljað aðstoða yfirvöld í Írak við að grafa upp lík úr fjöldagröfum og bera kennsl á þau, vegna stefnu Íraka varðandi dauðarefsingar, en tæplega 300 fjöldagrafir hafa fundist í landinu. Bakhtiar Amin, mannréttindamálaráðherra Íraks, segir að fjölmargt fólk þurfi til að hjálpa til við aðgerðir.Milljóna sé saknað og hundruðir þúsunda í fjöldagröfum. Hann segir að Saddam Hussein hafi gert lanið að glæpasafni og fólk eigi rétt á að fá að vita sannleikann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×