Erlent

Boðað verði til nýrra kosninga

Evrópusambandið segir að boða verði til nýrra forsetakosningu í Úkraínu til að koma í veg fyrir borgarastyrjöld. Hæstiréttur landsins úrskurðar um lögmæti kosninganna á morgun. Þjóðþing Úkraínu ógilti í gær úrslit forsetakosninganna, en samkvæmt þeim sigraði Viktor Janúkóvits, forsætisráðherra. Viktor Júsjenkó, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hefur sakað stjórnvöld um kosningasvik og kært úrslitin til hæstaréttar landsins, og tekur rétturinn afstöðu til kærunnar á morgun. Ákvörðun þingsins er ekki bindandi, en getur haft verulega áhrif. Bernhard Bot, utanríkisráðherra Hollands, sem er í forsæti ESB, segir brýnt að halda nýjar forsetakosningar á þessu ári. Joska Fischer, utanríkisráðherra Þýskalands, tekur í sama streng og segir það best fyrir lýðræðið í Úkraínu. Janúkóvits, forsætisráðherra, hélt frá Kænugarði í morgun til austurhluta landsins, þar sem hann nýtur mikils stuðnings, en hann hefur mætt mikilli andstöðu almennings í höfuðborginni. Leonid Kútsma, fráfarandi forseti Úkraínu, fundaði í morgun með þjóðaröryggisráði landsins, en mikil ólga hefur verið í landinu frá því forsetakosningarnar voru haldnar síðasta sunnudag. Haft var eftir honum fyrir stundu að illa gengi að ræða við bæði Janúkóvits og Júsjenkó um lausn málsins. Tug þúsundir stuðningsmanna Júsjenkós héldu áfram mótmælum í höfuðborginni í morgun og fögnuðu þeirri niðurstöðu þingsins að ógilda kosningaúrslitin. Þingið lagði ekki til hvenær skyldi kosið að nýju, en Júsjenskó hefur nefnt dagsetninguna 12. desember. Janúkóvits, sem stjórnvöld í Rússlandi styðja, hefur ekki lýst því yfir hvort hann vilji að þjóðin endurtaki kosningarnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×