Erlent

Mikill baráttuhugur í almenningi

Urður Gunnarsdóttir, talsmaður ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, sem starfar við kosningaeftirlit í Úkraínu, segir mikinn baráttuhug í almenningi í landinu. Hún segir ástandið í Kænugarði ótrúlega gott miðað við ólguna í landinu.  Vladímír Pútín, forseti Rússlands, óskaði í morgun Viktor Janúkóvits til hamingju með sigurinn í forsetakosningunum sem fram fóru í Úkraínu á sunnudag. Háttsettur fulltrúi rússneskra stjórnvalda hafði það eftir Pútín að sigur Janúkóvits skapaði kjöraðstæður fyrir samskipti ríkjanna tveggja. Sigri Janúkóvits hefur hins vegar ekki verið tekið eins vel heima fyrir og mómæltu tugþúsundir úrslitum forsetakosninganna harðlega á götum Kænugarðs í morgun, fjórða daginn í röð. Viktor Júsjenkó, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hefur sakað stjórnvöld um kosningasvindl og hvetur til allsherjarverkfalls í landinu til að mótmæla úrslitunum. Urður Gunnarsdóttir, talsmaður Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, hefur síðustu daga verið í Kænugarði þar sem hún starfaði meðal annars við kosnignaeftirlit. Í því felst að fylgjast með úrslitum á hverjum stað og sérstaklega utankjörfundaratkvæðum. Spurð hvernig ástandið í höfuðborginni sé núna segir Urður mikinn baráttuhug í fólkinu og stemningin sé stundum í líkingu við rokktónleika. Undir niðri kraumi þó mikil reiði í garð stjórnvalda og þegar forseti Úkraínu, Leonid Kutchma, flutti ávarp á risaskjá í miðbænum í morgun púaði fólk og lét öllum illum látum. Urður segir útilokað að spá fyrir um hvað gerist á næstu dögum. Boðað hafi verið til allsherjarverkfalls en ekkert sé farið að gerast í þeim efnum ennþá. Samkvæmt stjórnarskrá Úkraínu er ekki hægt að krefjast endurtalningar og því ómögulegt að segja til um hugsanleg endalok deilunnar.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×