Erlent

Algjör óvissa ríkir í Úkraínu

Hæstiréttur Úkraínu ætlar ekki að birta niðurstöðu forsetakosninganna fyrr en hann hefur tekið fyrir áfrýjunarbeiðni Viktors Júsjenko, sem tapaði kosningunum samkvæmt niðurstöðum yfirkjörstjórnar. Júsjenko sættir sig ekki við niðurstöðuna þar sem hann segir kosningarnar hafa verið ólýðræðislegar. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu hefur meðal annars tekið undir gagnrýni Júsjenkos. Einn af ráðgjöfum Viktors Janukovitsj, forsætisráðherra landsins, sem yfirkjörstjórnin hefur lýst sigurvegara kosninganna, segir hæstarétt ekki hafa heimild til þess að ógilda kosningarnar. Rágjafar Júsjenkos vísa því alfarið á bug. Þúsundir stuðningsmanna Júsjenkos, sem ólíkt Janukovitsj vill efla tengslin við Vesturlönd, hafa mótmælt á götum Kænugarðs og annarra borga landsins síðan á sunnudaginn. Júsjenko hefur ávarpað fjöldann og hvatt til allsherjarverkfalls verði Janukovitsj lýstur sigurvegari. Ekki er búist við að hæstiréttur Úkraínu komist að niðurstöðu fyrr en á mánudaginn. Talið er að Júsjenko muni nota tímann þangað til til að hvetja stuðningsmenn sína enn frekar til mótmæla. Allt að tvö hundruð þúsund manns hafa mótmælt á götum Kænugarðs undanfarið í miklum kulda Ráðamenn Evrópusambandsins og Bandaríkjanna hafa gagnrýnt framkvæmd kosninganna og varað við því að ef ekki verði komist að lýðræðislegri niðurstöðu kunni það að hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir samband Úkraínu við Vesturlönd. Rússnesk stjórnvöld hafa brugðist allt öðruvísi við. Í gærmorgun endurtók Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hamingjuóskir sínar til Janukovitsj, sem vill efla tengsl Úkraínu og Rússlands á nýjan leik eftir þrettán ára aðskilnað. Ráðgjafar Janukovitsj hafa sagst vilja ná sáttum við Júsjenko, sem hefur þvertekið fyrir nokkurs konar málamiðlun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×