Innlent

30. dagur verkfalls kennara

Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari telur ekki að lög verði sett á verkfall kennara. Hann leggur ekki mat á hvort þokast hafi í samkomulagsátt á fundi samninganefnda kennara og sveitarfélaga í gær. Ásmundur segir að hann sjái ekki forsendu fyrir miðlunartillögu eins og staðan sé. Fundi verði haldið áfram klukkan fjögur í dag. "Við hittumst í minni hópum fyrir þann tíma," segir Ásmundur. Hvort það gefist betur sé óljóst: "Það hefur engin aðferð skilað árangri hingað til." Samninganefndirnar tóku þá afstöðu á fundi gærdagsins að tjá sig ekki efnislega um fundinn. Kröfuganga og útifundur Kennarar ganga niður Laugarveginn við undirleik Lúðrasveitar verkalýðsins klukkan þrjú í dag. Þeir stefna á Ingólfstorg þar forysta Kennarasambandsins og grunnskólakennara ásamt Maríu Gylfadóttur formanns Heimilis og skóla - landssamtaka foreldra, Jóni Pétri Zimsen grunnskólakennara og Hönnu Hjartardóttur formanns Skólastjórafélags Íslands flytja ávörp. Höfða til ábyrgðar Heimili og skóli – landssamtök foreldra hvetja foreldra til að senda tölvupóst á kjörna fulltrúa í bæjar- og sveitarstjórnum þar sem krafist sé svara um hvernig þeir ætli að axla ábyrgð um skólaskyldu. Samtökin mælast til að í bréfinu standi: "Nú er nóg komið og mér finnst kominn tími til að þú axlir þína ábyrgð og semjir við kennara. Barnið mitt á rétt á kennslu og þér ber skylda til að veita hana."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×