Óvænt úrslit á Spáni og Ítalíu
Óvænt úrslit urðu í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu í gær þegar Real Madríd tapaði á heimavelli fyrir nýliðum Celta de Vigo. Celta-menn sigruðu með þremur mörkum gegn tveimur. Brasilíumennirnir Ronaldo og Julio Babtista skoruðu mörk Real Madríd en Pablo Contreras, Antonio Nunez og Fabian Canobbio mörk Celta. Deportivo la Coruna sigraði Atletico Madríd 1-0 og Real Betis vann Osasuna 1-0. AC Milan sigraði Sienna 3-1 í ítölsku úrvalsdeildinni í gærkvöldi. Massimo Ambrosini, Andrei Shevchenko og Kaka skoruðu mörk Milanómanna. Hitt Milanóliðið, Internazionale, mátti þola ósigur gegn Palermo. Sikileyingarnir unnu 3-2.