
Innlent
Vegurinn um Víkurskarð lokaður

Bílar hafa verið að festast á veginum um Víkurskarð í dag og vill lögreglan á Akureyri koma því á framfæri að veginum hefur verið lokað vegna færðarinnar en verður hugsanlega opnaður síðar í dag. Veghefill er á leiðinni þangað til að ryðja veginn. Jörð er nú alhvít á Norðurlandi og flughált á götum í byggð sem og á þjóðvegum. Fyrsti alvöru snjórinn féll í gærkvöld og í nótt og er nú 5-10 sentímetra jafnfallinn snjór á Akureyri. Á norðanverðum Vestfjörðum er einnig alhvít jörð. Lögreglu á Norðurlandi ber saman um að ökumenn séu flestir hverjir enn vanbúnir til vetraraksturs og rétt fyrir þá sem á annað borð neyðast til að vera á ferðinni í dag að gæta ítrustu varúðar.