Verði að fá ríkisborgararétt
Íslenskt vegabréf dugar ekki til að leysa Bobby Fischer úr haldi japanskra stjórnvalda samkvæmt óformlegu svari sem barst lögmönnum hans í dag. Sæmundur Pálsson, vinur Fischers, segir að nú verði íslensk stjórnvöld að bregðast við og veita Fischer fullan ríkisborgararétt. Það er ljóst að afstaða japanskra stjórnvalda í málefnum Fischers mótast ekki af lagalegum forsendum heldur pólitískum og svo virðist sem bandarísk stjórnvöld beiti miklum þrýstingi til að hann verði ekki látinn laus úr haldi. Masako Suzuki, lögmaður Fischers, fékk í dag með óformlegum hætti svar um það að íslenskt vegabréf dygði ekki til að fá Fischer leystan úr haldi. Fischer varð 62 ára í dag og Sæmundur Pálsson hitti hann í fangelsinu en fékk ekki að færa honum blóm. Sæmundur segist ekki hafa verið með neina gjöf en hann hafi sungið fyrir hann afmælissönginn og því hafi Fischer tekið vel. Þó að lögmaður Fischers hafi fengið þau skilaboð í dag að íslenska vegabréfið yrði hunsað mun hún áfram reyna að fá formlegt svar og fund í dómsmálaráðuneytinu fyrir helgi en takist það ekki ætlar hún að stefna japönskum stjórnvöldum. Sæmundur segir að einhver í dómsmálaráðuneytinu hafi gefið þær upplýsingar að hann yrði ekki látinn laus. Hann telji þó ekki öll von sé úti. Suzuki hafi talað við blaðamenn sem hafi sagt að það væri á hreinu að hann yrði sendur til Íslands ef hann hefði þar ríkisborgararétt. Það væri allra sterkasti leikurinn.