Erlent

Hótar frekari hryðjuverkum

Síðdegis var birt myndbandsupptaka frá næstráðanda al-Qaida, Ayman al-Zawahri, þar sem hann hótar frekari hryðjuverkum í Lundúnum. Hann sagði líka Bandaríkjamenn verða að búa sig undir tugþúsunda mannfall í Írak kalli þeir ekki sveitir sínar þaðan þegar í stað. Al-Zawahri er hvítklæddur með svartan höfuðklút og Kalashnikov-riffil við hlið sér á myndbandsupptökunni. Hann er næstur Osama bin Laden í valdaröðinni hjá al-Qaida og margir telja hann í raun og veru þann sem ræður. Hann hótaði í dag öllu illu, sagði m.a. að Tony Blair hefði fært eyðileggingu yfir miðborg Lundúna og hann muni valda meiru af slíku, með guðs hjálp. Þjóðum „krossfarabandalagsins“ hafi verið boðið vopnahlé ef þær yfirgefi land íslams og að bin Laden hafi sagt að þær muni ekki búa við öryggi fyrr en Palestínumenn búi við öryggi. „En þið hafið látið blóðið streyma eins og fljót í löndum okkar og við höfum sprengt eldfjöll reiðinnar í löndum ykkar. Skilaboð okkar eru skýr: Þið njótið ekki öryggis fyrr en þið farið úr landi okkar, hættið að stela olíu okkar og auði og hættið að styðja spillta stjórnendur,“ sagði al-Zawahri. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, vildi ekki einu sinni ræða þennan boðskap á blaðamannafundi í dag þegar blaðamaður óskaði eftir því. Al-Zawahri virtist lítinn greinarmun gera á Bandaríkjamönnum og Bretum því hinir fyrrnefndu fengu líka sinn skerf af hótunum. Hann sagði að ef þeir héldu áfram sömu árásarstefnu gegn múslimum myndu þeir sjá nokkuð sem fái þá „til að gleyma hinum hræðilegu atburðum í Víetnam og Afganistan“ og sem árásirnar á New York og Washington hafi aðeins verið smjörþefurinn af.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×