Erlent

George Best er dáinn

Reuters

Knattspyrnukappinn George Best er dáinn. Hann lést á spítala í London nú í morgun. Norður-Írinn Best, sem var 59 ára, gerði garðinn frægann með Manchester United en átti við áfengisvanda að stríða og þurfti að fá ígrædda lifur fyrir rúmum þremur árum.

Síðustu daga hefur heilsu Best hrakað snarlega og í gær var orðið ljóst að hann ætti aðeins örstutt eftir. Skömmu eftir hádegið í dag var hann svo úrskurðaður látinn.

Best fæddist í Belfast á Norður Írlandi í maí árið 1946 og snemma var ljóst að hann hafði mikla hæfileika á knattspyrnuvellinum. Aðeins sautján ára spilaði hann sinn fyrsta leik með Manchester United og eftir það var ekki aftur snúið. Fimm árum síðar var Best á hapunkti ferilsins, þegar hann leiddi Manchester United til sigurs í Evrópukeppni meistaraliða. Það ár var hann bæði kjörinn besti knattspyrnumaður Englands og Evrópu.

En þó að Best sé almennt talinn einn hæfileikaríkasti knattspyrnumaður sem Bretland hefur alið, komu snemma fram brestir. Hann þoldi frægðina illa og leiddist út í óreglu.

Segja má að glæstum en stuttum ferli hans hafi í raun lokið þegar hann var aðeins tuttugu og sex ára gamall.

Eftir áratugi af stífri drykkju og miklu skemmtanalífi gaf lifrin sig loks og fyrir þrem árum gekkst Best undir lifrarígræðslu, sem heppnaðist vel. Um tíma virtist sem nýtt tímabil væri hafið í lífi hans, en síðan tók að síga á ógæfuhliðina á ný og aftur þurfti Best að leggjast inn á sjúkrahús. Síðustu vikurnar lá hann á milli heims og helju og baráttunni lauk síðan endanlega í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×