Innlent

Kostar 620 milljónir

Miklar umræður hófust á fundi borgarstjórnar í gær um landnámsbæinn í Aðalstræti og þann kostnað sem borgarsjóður ber af honum. Ólafur F. Magnússon hóf umræður um landnámsbæinn og sagði sérkennilegt að verið væri að búa til eftirlíkingu af gamalli götumynd á sama tíma og verið væri að leggja tiltölulega upprunalega götumynd Laugavegarins frá 19. öld í rúst. Hann sagði jafnframt að það samræmdist ekki reisn og virðingu minjanna að koma þeim fyrir í hótelkjallara. Undir hið síðarnefnda tóku nokkir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins; Kjartan Magnússon, Björn Bjarnason og Gísli Marteinn Baldursson. Að auki bentu sjálfstæðismenn á að landnámsskálinn væri kominn 170 til 263 milljónum fram úr áætlunum, eftir því við hvaða áætlun væri miðað. Kostnaðurinn væri orðinn 620 milljónir. Á móti vísaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir til þess að kostnaðaráætlun frá árinu 2002 hefði hljóðað upp á 530 milljónir. Síðan þá hefði verið fallið frá fornleifauppgrefti sem hefði kostað 50 milljónir en 25 milljónum hefði verið veitt aukalega í sýningarskála. Engin formleg kostnaðaráætlun upp á 505 milljónir hefur þó verið sett fram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×