Innlent

Dregur úr aðild að stéttarfélögum

Þátttaka í stéttarfélögum fer minnkandi og sífellt minna hlutfall af vinnumarkaði er í stéttarfélögum. Gunnar Páll Pálsson, formaður VR, segir að á hinum norðurlöndunum dragi úr þátttöku í stéttarfélögum, þar sé komin samkeppni milli stéttarfélaga með lággjaldastéttarfélögum. "Þau eru einfaldari og bjóða minni þjónustu, eru jafnvel án kjarasamnings. Ég hef heyrt dæmi um mánaðargjald upp á 330 danskar krónur meðan hefðbundið félag býður aðild fyrir 900 krónur á mánuði," segir hann. Félagi í lággjaldastéttarfélagi fær meðal annars lögfræðitryggingu fyrir aðstoð vegna ágreinings við vinnuveitendur og boðið er upp á fjölbreyttari atvinnuleysistryggingar. Gunnar Páll segir að íslensku stéttarfélögin búi sig undir aukna samkeppni og að lággjaldastéttarfélög geti farið að ryðja sér til rúms hér á landi. "Það gæti farið að bresta á að fólk vildi standa í meira mæli utan stéttarfélaga. Þá er eitt ráðið að bjóða upp á ódýrari aðild," segir hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×